top of page
Search
Writer's pictureRúnar Örn

Fyrsta diskótekið tekið...

Updated: Jan 17, 2019

Ungur hann var að árum þegar hann ákvað hvað hann vildi verða ef hann yrði nokkru sinni stór !  Já ég ákvað það kornungur að ég ætlaði að verða plötusnúður þegar ég yrði stór, og um leið og ég hafði aldur til þá fór ég á öll 16 ára böll sem haldin voru í Sjallanum sællar minningar, til þess eins að standa út í horni og horfa aðdáunaraugum á plötusnúðana sem þar voru að störfum.  Þetta voru miklir töffarar, Stefán Pétursson og Kristinn Jónsson.  Þeir voru mínar hetjur á þessum tíma og ég ætlaði að verða eins og þeir þegar ég yrði stór (ég var 1 og 2 árum yngri en þeir :-)

Fyrsta alvörugiggið mitt var á skemmtistað sem hét Þinghóll og var inni í firði, í Ljóninu, þar sem Bónus og fleiri verslanir eru nú.  Ef ég man þetta rétt þá hringdi hún Svana í Krismu í mig og bað mig að hjálpa sér, en einhverra hluta vegna þá hafði hún tekið að sér að þeyta skífum þarna eitt kvöld og hún hafði frétt af litla stráknum og áhuga hans og bað mig semsagt að koma og aðstoða sig.  Þetta var auðvitað stóra tækifæri lífs míns og ég spratt af stað vel greiddur og fínn (já ég var með hár þá) og við Svana spiluðum Bítlana, Rolling Stones, Örvar Kristjánsson, og fleiri góða fyrir fólkið sem þarna mætti sem flest var komið af léttasta skeiði.  þetta kvöld breytti lífi mínu, þvi að þarna leið mér vel og þarna fann ég mig og mína köllun.  Þetta var nú aldeilis djobbið fyrir mig !  Ég hélt áfram í faginu en ég veit ekki til þess að hún Svana hafi þeytt skífum síðan.

Þetta fyrsta DJ kvöld gekk ótrúlega vel og í kjölfarið fór ég að spila þarna innfrá í Þínghól og það gekk fanta vel.  Fólkið sem kom þarna var í eldra kantinum þannig að örlög mín voru svolitið í fyrstu að spila öll þessi gömlu góðu lög, allt aftur í harmonikkutónlistina, Bill Hailey, Prestley og rokkið, Bítlana, Stones, o.s.frv.  Ég sérhæfði mig því snemma í því að horfa yfir salinn og dansgólfið og spila þá tónlist sem mér fannst passa fyrir fólkið á staðnum, og þó ég segi sjálfur frá þá varð ég fljótt nokkuð naskur við þetta.  staðurinn breytti um eigendur og nafn, en alltaf stóð litli strákurinn í diskóbúrinu, kominn í dramuastarfið og takmarkið framundan var einfalt.  - Ég vildi komast í diskóbúrið í Sjallanum, og þangað skyldi ég komast, hvað sem tautaði og raulaði !


0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page